Útflutningur ferðaþjónustu nam samtals 190 milljörðum króna á þriðja fjórðungi ársins og jókst um 3,2% milli ára. Þetta er töluvert minni vöxtur en á síðustu fjórðungum.

Leita þarf aftur til fjórða ársfjórðungs ársins 2010 til að finna minni vöxt en uppsveiflan í ferðaþjónustu hófst árið eftir. Frá þeim tíma hefur vöxtur útflutningstekna numið að meðaltali 18,6% milli ára. Vöxturinn á þriðja ársfjórðungi nú sker sig því verulega frá meðalvexti síðustu ára segir í nýjustu Hagsjá Landsbankans.

Vöxturinn á föstu gengi er umtalsvert meiri en á föstu verðlagi. Aukning útflutnings ferðaþjónustu á föstu gengi nam 12% á þriðja fjórðungi borið saman við sama tímabil í fyrra.

Það að aukningin á föstu gengi sé meiri en á verðlagi hvers tíma skýrist af styrkingu krónunnar milli tímabilanna en gengisvísitalan var að meðaltali 163,1 stig á þriðja ársfjórðungi 2017 en 176,9 stig á sama tímabili í fyrra (7,8% lægra). Í raun dróst heildarútflutningur þjónustu á þriðja ársfjórðungi saman, en hann nam 225 milljörðum króna sem er 2,6% samdráttur.

Ef hins vegar er horft á fast gengi þá jókst útflutningurinn hins vegar um 5,6%. Heildarinnflutningurinn nam hins vegar 108 milljörðum króna, sem einnig er samdráttur, eða um 0,8%, svo afgangurinn af þjónustuviðskiptum námu því 118 milljörðum króna sem er samdráttur um 4,3%.

Afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði skýrist af afganginum af þjónustujöfnuði enda hefur mælst halli á vöruskiptajöfnuði síðan á fyrsta ársfjórðungi 2015.