Björgvin Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segir að eftirspurn eftir rafmagni hérlendis sé svo mikil að orkufyrirtæki eigi ekki nægt rafmagn til að selja. Þetta kemur fram í frétt Landsvirkjunar um málið.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, kallaði í síðustu viku eftir því að Landsvirkjun lækkaði raforkuverð til þess að tryggja samkeppnishæfni iðnaðar á Íslandi.

Leiðréttir rangfærslur

Sagði hann það nauðsynlegt í ljósi þróunar á alþjóðlegum raforkumörkuðum. Björgvin segir fullyrðingum Almars ábótavant.

„Það er rétt hjá Almari að raforkuverð á skammtímamörkuðum í Evrópu og víðar hefur lækkað að undanförnu,“ segir Björgvin,  en þannig segir hann fyrirtæki geta keypt rafmagn til 1-6 mánaða á ágætum kjörum.

„En samkeppnishæfni Landsvirkjunar er fyrst og fremst í samningum á föstu verði til 10-15 ára. Gögn um alþjóðlega raforkusamninga sem gerðir eru á þeim forsendum liggja ekki á lausu en Landsvirkjun býr þó yfir ágætum upplýsingum í gegnum markaðsstarf sitt.”

Sambærilegt kjörum í Kanada

Björgvin nefnir að gerðir hafi verið rafmagnssamningar milli fyrirtækja í Kanada og Landsvirkjunar þar sem samið hafi verið til 15 ára en með 5 ára uppsagnarfyrirvara. Kanadíska ríkið þurfti þó að hafa hlut í samningunum og hlutuðust til um að aðilar næðu saman.

„Þegar á allt er litið séu samningar sem fyrirtækið býður hérlendis vel samkeppnishæfir við þá sem gerðir voru í Kanada,“ segir Björgvin.

Ekki hagstæðari kjör í Noregi en Íslandi

Að sögn Björgvins eru fáar vísbendingar um að langtíma samningar séu í boði í Noregi á hagstæðari kjörum en bjóðast hérlendis. „Þvert á móti hefur Statkraft, systurfyrirtæki Landsvirkjunar og stærsti raforkuvinnsluaðili Noregs, upplýst að það bjóði sjaldan samninga til lengri tíma en 5-7 ára.”

„Það hefur ekki verið tilkynnt um nein stór áform um uppbyggingu á nýjum verksmiðjum í Noregi á undanförnum árum, en á sama tíma hefur Landsvirkjun reist nýjar virkjanir, endursamið við eitt álveranna á Íslandi, aukið sölu rafmagns til viðskiptavina í stóriðju og heildsölu, lokið samningum við tvö ný kísilmálmver sem eru í byggingu og fleiri verkefni eru í farvatninu,“ segir hann.