"Ekkert tilefni hefur gefist til þess að bankinn hviki frá þeirri spá sinni að raunhæft verði að lækka vexti í mars á næsta ári," sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri á blaðamannafundi nú í dag þar sem hann rökstuddi þá ákvörðun bankans að halda stýrivöxtum óbreyttum í 13,3%.

Að mati bankastjórnar er verðbólguþrýstingur enn umtalsverður en engu að síður hefur verbólga hjaðnað frá því að bankastjórnin kom síðast saman í júlímánuði.

"Vísbendingar sýna að innlend eftirspurn er enn kröftug. Enn er mikill spenna á vinnumarkaði, velta vex ört, mikil eftirspurn er eftir fasteignum og útlánavöxtur hefur aukist," segir í rökstuðningi bankans. Engu að síður stendur bankastjórninn við þá spá sína að vaxtalækkunarferillinn geti hafist í mars. Greiningaraðilar eru ekki jafn bjartsýnir og eru farnir að seinka væntanlegri vaxtalækkun fram á næsta sumar í spám sínum.