Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að málflutningur Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra, um að hafna beri íslensku krónunni, sé einungis skoðun Benedikts og lýsi ekki stefnu ríkisstjórnarinnar. Ekki stendur til að skipta um gjaldmiðil sagði Bjarni í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í gærkvöldi.

Í gær skrifaði Benedikt pistil þar sem að hann varpaði upp spurningunni: „Má fjármálaráðherra hafna krónunni?“ Þar finnur hann krónunni allt til foráttu og bendir á að fjármálaráðherrar nítján Evrópulanda hafi nú þegar hafnað krónunni. Bjarni segir hins vegar að ríkisstjórnin hafi engin áform um að leggja gjaldmiðilinn til hliðar og taka upp nýjan.

Bjarni var spurður að því hvort að hann væri ósáttur með það að fjármálaráðherra riti pistla með þessum hætti á opinberum vettvangi svarar Bjarni: „Auðvitað er ekki hægt að segja í samsteypustjórn að menn séu allir beygðir inn á sömu skoðunina, en það þarf að vera alveg á hreinu að það er ekki stefna stjórnarinnar að skipta hér út gjaldmiðlinum,“ segir Bjarni.