Kröfur Isavia, vegna vélarinnar TF-GPA, flugvélar ALC sem kyrrsett hefur verið á Keflavíkurflugvelli til tryggingar 2 milljarða skuld Wow air, voru teknar til greina að fullu í aðfararmáli í Landsrétti í gær. Flugvélin verður því áfram í Keflavík. Aftur á móti var ekki tekin afstaða til hvort Isavia ætti kröfu á ALC.

Viðskiptablaðið hefur fjallað töluvert um málið eftir að það kom upp. Vélin var kyrrsett í lok mars en í apríl krafðist ALC að kyrrsetningunni yrði aflétt. Umrædd vél hefði aðeins stofnað til lítils hluta af skuldinni. Að auki taldi ALC stöðvunarheimild loftferðalaga ekki nægilega skýra og í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Í héraði var ekki fallist á aðfararbeiðni ALC en að taldi héraðsdómur að vélin gæti ekki þjónað sem trygging fyrir skuldinni allri. Þessu sneri Landsréttur við með úrskurði sínum í gær.

ALC hafði krafist frávísunar málsins frá Landsrétti á grundvelli þess að kæruheimild væri ekki til staðar. Í raun væri Isavia að kæra eigin sigur. Á það féllst Landsréttur ekki með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar.

Í úrskurði Landsréttar var vísað til forsögu stöðvunarákvæðis loftferðalaga en því var breytt árið 2002. Breytingin fól í sér að gildissvið þess var útvíkkað til að ná einnig til eigenda eða umráðamanna loftfara í stað þess að ná eingöngu til flugrekenda.

„Ekki er að finna í ákvæðinu neinar takmarkanir á umfangi þeirra gjalda sem heimilt er að þvinga fram greiðslur á með því að aftra för loftfars eða hversu lengi vanskil mega hafa staðið. Þá verður ekki ráðið af ákvæðinu að samningar við umráðanda loftfars um greiðslufrest á vangreiddum gjöldum geti komið í veg fyrir beitingu greiðsluþvingunar gagnvart eiganda,“ segir í úrskurðinum.

Sjá einnig: Þyrftu að stöðva allan flotann

Fallist var á það með Isavia að stöðvunarheimildin væri gagnslítil ef hún tæki aðeins til gjalda sem tengdust því loftfari enda þyrfti félagið þá að stöðva för allra loftfara í flota viðkomandi félags. Það væri til þess fallið að gera út af við starfsemi þess. Þá var á það bent að þó ákvæðið væri íþyngjandi þá hefði það verið óbreytt í loftferðalögum á meðan leigusamningur aðila var í gildi.

„Þvingunarúrræði [loftferðalaga telst því] skýrt og afdráttarlaust og þar sem ákvæðið er augljóslega sett í þágu flugumferðar og þar með í almannaþágu og beiting þess fyrirsjáanleg fyrir varnaraðila og aðra þá sem standa í flugrekstri kemur ekki til álita að í því felist slík skerðing á eignarrétti varnaraðila að ekki verði byggt á því í málinu,“ segir í úrskurðinum.

Ekki var því fallist á að fella kyrrsetninguna úr gildi. Þó var tekið fram að í aðfararmálinu yrði ekki tekin afstaða til þess hvort Isavia ætti kröfu á hendur ALC til greiðslu gjalda Wow og ekki yrði heldur tekin afstaða til hvaða gjöld ALC þyrfti að greiða eða setja tryggingu til að létta haldi flugvélarinnar.