Uppgjör Arion banka á fyrsta ársfjórðungi gæti haft neikvæð áhrif á útboð og skráningu bankans og rýrt söluvirði bankans, að mati Viðmælenda Viðskiptablaðsins. Arðsemi bankans hefur farið minnkandi á undanförnum árum og kostnaður vaxandi. Stefnt er að almennu hlutafjárútboði og tvíhliða skráningu bankans í kauphöll á Íslandi og í Svíþjóð í næsta mánuði.

Arion banki birti uppgjör fyrsta ársfjórðungs fyrir viku síðan. Bankinn hagnaðist um 1,9 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins og var afkoman undir væntingum stjórnenda, en á sama tímabili árið áður hagnaðist bankinn um 3,4 milljarða.

Rekstrartekjur drógust saman um 4% milli ára – einkum vegna lægri tekna af útlánum og lægri vaxtamunar, þrátt fyrir jákvæðan útlánavöxt – á meðan rekstrarkostnaður jókst um rúm 7%. Einskiptiskostnaður vegna vaxtar kortafyrirtækisins Valitor á erlendri grundu, og miklar útgreiðslur vegna óvenjumikla ökutækjatjóna hjá tryggingafélaginu Verði, höfðu einnig neikvæð áhrif á afkomuna.

Arðsemi eigin fjár í Arion banka var 3,6% á ársfjórðungnum, en var 6,3% fyrir sama tímabil árið á undan. Ávöxtunarkrafa á tíu ára skuldabréfi íslenska ríkisins var að meðaltali 5,1% á fyrsta ársfjórðungi, sem þýðir að arðsemi bankans var einu og hálfu prósentustigi undir áhættulausri ávöxtun. Hlutfall kostnaðar af tekjum bankans nam tæplega 71% og jókst um 7,4% milli ára.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins eru á einu máli um það að uppgjör Arion banka fyrir fyrsta ársfjórðung sé ekki ýkja söluvænt.  Síðustu viðskipti með hlutafé í Arion banka í febrúar síðastliðnum hafi farið fram á genginu 0,805 krónur fyrir hverja krónu af eigin fé, en verði bankinn seldur í sumar gætu viðskiptin farið fram á lægra gengi.

Uppgjör Arion banka á fyrsta ársfjórðungi er líklega síðasta árshlutauppgjör Arion banka fyrir skráningu bankans á markað, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur það verið stefna Kaupþings undanfarna mánuði að ráðast í almennt hlutafjárútboð og tvíhliða skráningu Arion banka í kauphöll á Íslandi og í Svíþjóð fyrir sumarið, þá helst fyrri helming júnímánaðar.

Stefna á yfir 10% arðsemi eigin fjár

Arðsemi Arion banka til framtíðar ræður mestu um verðið á bankanum í fyrirhuguðu útboði og skráningu. Í síðustu fjárfestakynningu Arion banka eru markmið bankans til meðallangs tíma útlistuð. Samkvæmt henni stefnir bankinn á yfir 10% arðsemi eigin fjár, með útlánavexti í takt við hóflegan hagvöxt, lækkun eigin fjár og hagræðingu.

„Það er þó erfitt að selja þá sögu þegar leitnin er í hina áttina,“ segir einn viðmælandi Viðskiptablaðsins. Er þar vísað til þess að á undanförnum árum hafi arðsemi Arion banka farið lækkandi og kostnaður hækkandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .