Íslensku lífeyrissjóðirnir hafa „ekki nærri því“ nýtt allar þær heimildir sem þeir hafa til erlendra fjárfestinga í gegnum sérstaka undanþágu frá gjaldeyrishöftum. Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í samtali við Viðskiptablaðið að loknum blaðamannafundi þar sem næstu skref til losunar fjármagnshafta voru kynnt á þriðjudag.

Þorbjörn Guðmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, telur að lífeyrissjóðirnir ætli að fara hóflega í erlendar fjárfestingar og segir það ekki hafa komið sér á óvart að þeir hafi ekki fullnýtt allar heimildir.

„Hjá flestum sjóðum eru ekki miklir lausir peningar þannig að ég held að menn hafi ekki verið tilbúnir að losa mikið fé til að fara erlendis,“ segir Þorbjörn og bætir því við að skilyrði á erlendum mörkuðum spili vissulega inn í.

„Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að lífeyrissjóðirnir hafi þann kost að velja á milli íslenska markaðarins og erlendra. En þeir vilja auðvitað stýra því hvenær menn fara að fjárfesta erlendis og ég hef ekki nokkrar efasemdir um það að þeir muni gera það í auknum mæli í framtíðinni.“

Þorbjörn er alls ekki viss um að sjóðirnir muni nýta alla heimild sína fyrir lok september.

„Þeir sem eru í eignastýringu eru ekkert ofboðslega spenntir að eiga þessi viðskipti núna, svo fer þetta líka eftir fjárfestingartækifærum hér heima. Maður fjárfestir ekki erlendis bara til að fjárfesta erlendis.“