Stjórn RÚV ohf. ítrekar að ekki eigi að reka Ríkisútvarpið með halla á næsta ári eins og fjallað var um í Morgunblaðinu og á mbl.is í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu sem var send til fjölmiðla.

Stjórnin segir að áætlanir RÚV geri ráð fyrir rekstrarafgangi á yfirstandandi rekstrarári eins og á síðasta rekstrarári. Nýlegt uppgjör RÚV sýni að rekstur RÚV hafi verið hallalaus síðastliðið ár, eða frá 1. september 2014 til 31. ágúst 2015.

Stjórn RÚV segir fréttaflutning Morgunblaðsins og mbl.is rangan og harmi ónákvæman fréttaflutning.

Tilkynningin stjórnar Ríkisútvarpsins í heild:

„Stjórn RÚV ohf. vill ítreka að ekki stendur til að reka Ríkisútvarpið með halla á næsta ári. Fréttir Morgunblaðsins og mbl.is þess efnis, sem birst hafa í dag eru ekki réttar. Skýrt kemur fram í tilkynningu RÚV til Kauphallar þann 30.október sl. að áætlanir RÚV geri ráð fyrir rekstrarafgangi á yfirstandandi rekstrarári, rétt eins og á nýliðnu rekstrarári. Nýlegt uppgjör RÚV, sem birtist í Kauphöll þann 13.10 staðfestir að rekstur RÚV síðastliðið ár (1.9.2014-31.8.2015) hefur verið hallalaus. Ekki er gert ráð fyrir tapi í áætlunum stjórnar og stjórnenda RÚV. Væntingar stjórnar byggjast, líkt og margoft hefur komið fram, á því að útvarpsgjald lækki ekki frekar á næsta ári sem er í samræmi við það sem menntamálaráðherra hefur gefið fyrirheit um. Gangi þau áform ráðherra ekki eftir þá er ekki um annað að ræða en að skera niður þjónustu Ríkisútvarpsins til að tryggja hallalausan rekstur. Því er rangt sem segir í fyrirsögn Morgunblaðsins og mbl.is „Spá miklum halla á RÚV“. Stjórn RÚV harmar ónákvæman fréttaflutning af málinu.“