Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við Viðskiptablaðið að sú ákvörðun að lýsa því yfir að yfirlýsing um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum væri ekki lengur í gildi, ætti ekki að vera stórtíðindi en vissulega tímamót.

Fyrr í dag birtist frétt á vefsíðu Fjármálaráðuneytisins um að Ríkisstjórn Íslands hafi eftir samráð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands ákveðið að ekki sé tilefni til þess að hafa í gildi yfirlýsingu um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum.

„Þessi ríkisstjórn hefur ekki gert yfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar að sínum,“ segir Bjarni. „Af og til hefur verið spurt að því að hvernig þessi ríkisstjórn mun nálgast þessar yfirlýsingar, meðal annars vegna þess að minnst hefur verið á þessa yfirlýsingu í ríkisreikningi. Ég hef því verið á þeirri skoðun að skýra þurfi þetta mál.“

Bjarni leggur áherslu á að hér sé ekki um stefnumarkandi ákvörðun að ræða. „Með ákvörðuninni nú er ekki verið að halda því fram að hingað til hafi innstæður notið ábyrgðar ríkissjóðs. Slík ábyrgð hefur aldrei verið lögfest og í raun snerist málflutningur okkar fyrir EFTA-dómstólnum í Icesave-málinu um það að hér væri ekki ríkisábyrgð á innstæðum. Það eru á vissan hátt góð skilyrði núna til að hnykkja á þessu núna og afnema alla hugsanlega óvissu í málinu.“