Það þarf enga brunaútsölu til að selja þessa banka,“ segir Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, um hugmyndir um að ríkið selji Íslandsbanka og Landsbankann að hluta eða öllu leyti. Í fjárlögum er heimild til að selja Íslandsbanka að fullu og tæplega 30% hlut í Landsbankanum.

„Almennt talað er ansi vel í lagt að ríkið sé með tvo banka að fullu í sinni eigu og væri hægt að færa ágæt rök fyrir því að selja einhvern hluta af því. Nákvæmlega hversu langt ætti að ganga er álitamál og fer meðal annars eftir því hvaða kaupendur er hægt að finna. Það er hins vegar engin sérstök vá fyrir dyrum. Þessir bankar ganga alveg þokkalega og skila ágætum arði í ríkissjóð. Ríkissjóður þarf ekki á peningunum að halda og það er alveg hægt að taka sér góða tímasetningu og góða kaupendur. Það skiptir í raun og veru meira máli fyrir hagkerfið að þessir bankar séu vel reknir og í góðri samkeppni en nákvæmlega hvort ríkið fær aðeins meira eða minna fyrir þá,“ segir Gylfi.

Óljóst hver kaupi

Gylfi bendir á að kaupendur Arion banka af Kaupþingi hafi að stórum hluta verið hluthafar í Kaupþingi. „Það er ekki alveg hlaupið af því að selja þann banka og var kannski nánast að fyrrverandi eigendur keyptu hann af sjálfum sér, allavega að hluta. Það má segja að það sé óleyst vandamál að finna framtíðareigendur að þeim banka, hvað þá að reyna að selja hina tvo líka,“ segir Gylfi. Þá séu aðstæður á alþjóðlegum bankamarkaði ekki endilega heppilegar sem stendur. „Það er ekkert sérstaklega mikil stemming fyrir evrópskum bönkum neins staðar í heiminum. Innlendir fjárfestar eru ekki á hverju strái sem ráða við upphæðir af þessari stærð, það eru eiginlega bara ríkið og lífeyrissjóðir sem ráða við umtalsverðan hlut í svona dýru fyrirtæki sem auðveldar ekki málið,“ segir Gylfi Í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kynnt var í desember var bent á að markaðsaðstæður gætu breyst hratt og ekki mætti miða um of við markaðsverð á þeim tíma sem undirbúningur sölu hefst.

Taka þurfi sjálfstæða ákvörðun þegar að sölu kemur hvort verð sé heppilegt þá. Gylfi segir að stjórnvöld þurfi að svara ýmsum spurningum áður en þau taki ákvörðun um hvernig fjármálakerfið eigi að líta út til frambúðar. „Ýmsum spurningum er ósvarað, til dæmis um framtíð bankaskattsins og aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Ef menn ætla að gera eitthvað í þá veru þarf að gera það áður en bankarnir verða seldir. Það er ekki gott fyrir mögulega kaupendur að þeir viti ekki hvað þeir eru að kaupa.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .