*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 5. september 2012 08:18

Ekki verið að biðja alla bæjarbúa „að loka sig inni“

Tökur á The Secret Life of Walter Mitty fara fram á Seyðisfirði næstu daga. Bærinn þarf að líta út fyrir að vera mannlaus.

Ritstjórn

Tökur á kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty, með Ben Stiller í aðalhlutverki, munu fara fram á Seyðisfirði á morgun (fimmtudag) og föstudag. Stiller, sem jafnframt er framleiðandi myndarinnar, hefur síðustu vikur verið ásamt tökuliði í Borgarnesi og í Stykkishólmi við tökur á myndinni.

Í bréfi frá framleiðslufyrirtækinu True Norht, sem birt er á vef Seyðisfjarðarkaupstaðar, kemur fram að í upptökum þurfi framleiðendur myndarinnar að láta líta svo út sem bærinn sé mannlaus.

„Við leitum því til allra bæjarbúa og biðjum góðfúslega um ykkar aðstoð svo þetta gangi vel eftir og biðjum ykkur um að mæta tilmælum kvikmyndagerðarmanna eftir bestu getu þessa tvo daga,“ segir í bréfinu til bæjarbúa.

„Við viljum árétta að við erum engan vegin að biðja alla bæjarbúa að loka sig inni þessa tvo daga, heldur eingöngu að aðstoða okkur við að hafa auðar þær götur sem við erum að vinna við hverju sinni og á meðan kvikmyndavélarnar rúlla. Fulltrúar okkar munu vera auðþekkjanlegir og geta svarað spurningum sem koma upp.“

Þegar hefur verið greint frá því að tökur fari fram við Hótel Ölduna á Seyðisfirði og við útsýnispallinn við stuðlabergssúlurnar í Fjarðarheiði.

Á vef Austurgluggans kemur fram að gert sé ráð fyrir því að tökurnar taki allan daginn og stýra þurfi umferð á meðan eða jafnvel loka í 3-10 mínútur í senn á meðan upptökur fara fram. Þá megi bíleigendur í nágrenni Öldunnar gera ráð fyrir að þurfa að verða beðnir um að fjarlægja ökutæki sín.

„Vinnuflokkurinn telur alls um 200 manns og meðal annars þarf að hugsa fyrir stóru rými þar sem hann geti borðað. Honum fylgja um 100 ökutæki, þar af um 25 vöruflutningabílar, sem koma þarf fyrir í bænum,“ segir í frétt Austurgluggans.