*

laugardagur, 16. febrúar 2019
Innlent 22. febrúar 2018 13:46

Ekki verið að byggja fyrir ungt fólk

Greiningardeild Arion banka segir að dæmigerð ný eign á fasteignamarkaði mæti ekki þörfum yngsta hópsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greiningardeild Arion banka segir nokkuð ljóst að hin dæmigerða nýja eign á fasteignamarkaðinum um þessar sé ekki byggð með þarfir eða fjárhagsstöðu yngsta hópsins í huga. Almennt er fermetraverð nýrra eigna hærra en eldri eigna en auk þess eru nýrri eignir að meðaltali 19 fermetrum stærri. Í ofanálag sé fyrst og fremst verið að byggja á hlutfallslega dýrum svæðum.

„Að meðaltali er ekki verið að byggja nýjar íbúðir fyrir yngri kynslóðina. Vissulega er yngra fólk sem kaupir nýjar eignir, enda eins og áðan var komið inn á er aðeins um meðaltalsútreikninga að ræða og ekki allar nýjar eignir á höfuðborgarsvæðinu með 54 milljón króna verðmiða. Engu að síður má ætla að minnihluti þessa hóps hafi efni á eða þolinmæði til að safna sér fyrir nýjum eignum,“ segir í greiningu deildarinnar.

Þá segir einnig að húsnæðisskorturinn hafi verið viðvarandi í nokkurn tíma og átt sinn þátt í því að þrýsta húsnæðisverði upp en greiningin leitaðist við að svara því fyrir hvern væri verið að byggja.