Janet Yellen, bandaríski seðlabankastjórinn, sagði í dag að efnahagsstaðan í Bandaríkjunum væri ekki ákjósanleg, en sagði þó að stefna seðlabankans vestanhafs hafi heldur hjálpað til en verið hindrun til að ná hagvaxtarmarkmiðum. Þetta kemur fram í frétt CNBC . Yellen þarf að svara spurningum bandarískra þingmanna í dag.

Seðlabankinn hefur staðið í ströngu eftir fjármálakreppuna 2008 og segir Yellen að bandaríski efnahagurinn hafi náð sér betur en hagkerfi aðildarríkja Evrópusambandsins. Stefna seðlabankans hefur verið að auka við neyslu og endurvekja störf í Bandaríkjunum að sögn Yellen. „Ég hef trú á því að við séum mjög nálægt því að ná þeim markmiðum,“ sagði Yellen meðal annars.

Efnahagsvöxtur í Bandaríkjunum hefur ekki náð sér á strik upp á síðkastið og hefur ekki farið yfir 3% eftir kreppuna. Þrátt fyrir að 16 milljón ný störf hafi orðið til í Bandaríkjunum frá árinu 2010 hefur kaupmáttaraukning ekki verið mikið. „Efnahagsvöxtur í Bandaríkjunum hefur valdið vonbrigðum,“ viðurkennir Yellen þó.