*

mánudagur, 23. júlí 2018
Innlent 13. janúar 2018 12:01

Ekki viss um að allir séu sammála sér

Umhverfisráðherra segir að það verði að koma í ljós hvort þjóðin sé einnig mótfallin olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Ingvar Haraldsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

 „Ég veit ekki hvort það fylgja mér allir í þessu,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra um hvort hann eigi von á því að Íslendingar fylgi honum að máli hvað varðar andstöðu við olíuvinnslu í íslenskri lögsögu.

Guðmundur var framkvæmdastjóri Landverndar þar til hann varð utanþingsráðherra eftir tilnefningu Vinstri grænna í nóvember. Landvernd hefur lýst sig mótfallna frekari olíuleit og olíuvinnslu. Að mati Landverndar myndi olíuvinnsla í íslenskri lögsögu auka fyrirsjáanlega loftslagsvanda heimsins og þannig leggja auknar byrðar á komandi kynslóðir. Guðmundur segir að að óbreyttu muni Ísland ekki standa við skuldbindingar sínar í Parísarsamkomulaginu.

Íslendingar hafa hins vegar fjölmörg tækifæri til að grípa til aðgerða sem borgi sig bæði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og í efnahagslegum skilningi. Hann bendir á skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem kom út á síðasta ári þar sem bent var á margvíslegar aðgerðir í loftslagsmálum sem væru þjóðhagslega hagkvæmar. Guðmundur nefnir sem dæmi rafvæðingu samgangna. Með því verði umhverfisávinningur og Ísland ekki eins háð innflutningi á orkugjöfum sem að auki hafi með orkuöryggi að gera og sé efnahagslega hagkvæmt.

Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra og formaður Bjartar framtíðar, var sama sinnis og Guðmundur og lýsti sig mótfallna framlengingu sérleyfis fyrir olíuleit í íslenskri lögsögu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.