*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Innlent 7. nóvember 2018 14:09

Ekki víst að fleiri hækkanir muni fylgja

Greinendur hjá Íslandsbanka telja ekki víst að fleiri vaxtahækkanir muni fylgja í kjölfarið á hækkuninni í morgun.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Versnandi verðbólguhorfur og hækkandi verðbólguvæntingar eru að mati greinenda hjá Íslandsbanka helsta ástæðan fyrir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tók þá ákvörðun að hækka stýrivexti úr 4,25% í 4,50%. Þó telja þeir ekki víst að fleiri vaxtahækkanir muni fylgja í kjölfarið. Þetta kemur fram í greiningu Íslandsbanka

„Þar mun ráða miklu hvort verðbólguhorfur versna frekar á næstunni og á móti hversu hratt hægir á vexti einkaneyslu og fjárfestingar næsta kastið," segir í greiningunni.

Ný þjóðhagsspá Seðlabankans, sem birt var í Peningamálum í morgun, gerir ráð fyrir nokkru meiri hagvexti (4,4%) í ár en í fyrri spá (3,6%). Árið 2019 spáir Seðlabankinn 2,7% hagvexti. Þetta er talsvert meiri hagvöxtur en við gerum ráð fyrir samanlagt þessi tvö ár. Munurinn liggur í minni innflutningsvexti á yfirstandandi ári og talsvert meiri vexti innlendrar eftirspurnar á næsta ári í spá Seðlabankans en í okkar spá.

Þá spáir Seðlabankinn nú að verðbólga aukist allhratt, fari hæst í 3,5% um mitt næsta ár en hjaðni í kjölfarið að nýju og verði komin nærri verðbólgumarkmiðinu í árslok 2020. Er þetta heldur minni verðbólga en við væntum, en við gerum þó einnig ráð fyrir hjaðnandi verðbólgu þegar frá líður.