Fyrirtæki Elon Musk, The Boring Company, sem Viðskiptablaðið sagði frá í gær væri byrjað að selja eldvörpur, var stofnað árið 2016 utan um hugmynd Musk um að byggja nýstárlegt samgöngukerfi neðanjarðar.

Hefur félagið þegar byrjað framkvæmdir, þó enn í litlum mæli, við margmilljarða áætlanir hans um svokallaða „hyperloop“ tækni, sem byggja á því að nýta lofttæmd göng til að skutla hylkjum með fólki og varningi yfir langar vegalengdir.

Þegar byrjað að grafa fyrstu göngin

Byrjað var að grafa fyrstu göngin, sem eru rúmlega 9 metra breið, í Los Angeles borg fyrir ári síðan. Jafnframt hefur félagið fengið heimild til að grafa undir hluta af þjóðvegi við Maryland, en það yrði hluti af gangakerfi sem á að tengja saman höfuðborg Bandaríkjanna, Washington, D.C. og New York borg.

En þangað til fyrirtækið fær nægilegar heimildir og fjárfestingar til að fullkomna tæknina og fara í frekari framkvæmdir hefur fyrirtækið aflað sér tekna á ýmsan annan hátt. Seldi það 50 þúsund derhúfur á síðasta ári með því fororði frá Musk að ef það tækist myndi fyrirtækið byrja að selja eldvörpur.

Áætlanir fyrirtækisins eru að mati Bloomberg fréttastofunnar líklegar til að taka mörg ár og krefjast mikilla fjármuna, auk leyfa frá hinum og þessum stofnunum og stjórnvöldum, þá hafa stjórnendur í Washington þegar tekið vel í áætlanir Musk og félaga í The Boring Company.

Félagið hyggst ekki sækjast eftir opinberri fjármögnun, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hyggst Donald Trump Bandaríkjaforseti fara í gríðarlegar innviðafjárfestingar í Bandaríkjunum á næstu árum, sem Demókratar hafa sagst styðja, þó þeir vilji fimm sinnum meiri útgjöld alríkisins.