Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar
Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Elfa Ýr Gylfadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, samkvæmt tilkynningu þar um. Elfa Ýr lauk B.A.-námi í bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1994, prófi í hagnýtri fjölmiðlun við sama skóla árið 1996 og hefur lokið tveimur meistaragráðum í fjölmiðlun og boðskiptum, þ.e. í fjölmiðlunar-, margmiðlunar- og fjarskiptafræðum frá Georgetown University í Bandaríkjunum árið 2000 og í fjölmiðla- og ímyndarfræðum frá University of Kent í Bretlandi árið 1995.

Frá árinu 2006 hefur Elfa Ýr starfað sem deildarstjóri fjölmiðlamála innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins en starfaði áður m.a. við dagskrárgerð, blaða- og fréttamennsku. Hún hefur leitt stefnumótunarvinnu ráðuneytisins á sviði fjölmiðlamála undanfarin ár og stýrt fjölda verkefna. Þá var hún m.a. starfsmaður útvarpsréttarnefndar um tveggja ára skeið og stundakennari í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands um 12 ára skeið.

Alls bárust 38 umsóknir um starfið, en tíu umsækjendur ákváðu að draga umsókn sína til baka þegar ljóst var að nöfn umsækjenda yrðu birt opinberlega.