Stjórnmálaumræða er á svo lágu plani hér á landi að þingmenn veigra sér við að taka þátt í henni, ef marka má pistil Elínar Hirst , sem birtist á Eyjunni. Elín er sá þingmaður sem talaði minnst í ræðustól á nýafstöðnu þingi, eða í um 111 mínútur í 29 ræðum. Til samanburðar flutti Össur Skarphéðinsson 714 ræður sem spönnuðu 1.824 mínútur.

„Alltof oft snúast umræðurnar um hver eigi heiðurinn að hverju og hver hafi klúðrað hverju. Niðrandi orð eru látin falla um persónur. Engum er hrósað nema að hann sé í rétta liðinu. Öllu er snúið á versta veg," segir í pistli Elínar.

Hún segir jafnframt að andrúmsloftið á Alþingi sé mjög slæmt, og ekki í líkingu við flesta aðra vinnustaði. „Auðvitað eru stjórnmál óvægin en þau verða að vera málefnalegri," bætir hún við.

„Ég hef mjög gaman af því að tjá mig opinberlega og tel mig hafa margt gott til mála að leggja, en ég hef ekki áhuga á að taka þátt í svona umræðum," segir Elín Hirst.