*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 15. mars 2018 12:33

Elín og Gunnar Egill ný inn í stjórn SVÞ

Samtök verslunar og þjónustu hélt aðalfund í morgun, en klukkan 14 hefst ráðstefna samtakanna á Hilton hótelinu.

Ritstjórn
Nöfn stjórnarmanna frá vinstri: Gunnar Egill Sigurðsson, Jón Ólafur Halldórsson, Margrét Sanders, formaður, Árni Stefánsson, Elín Hjálmsdóttir, Gústav B. Ólafsson og Ómar Pálmason
Aðsend mynd

Aðalfundur Samtaka verslunar og þjónustu var haldinn í dag í Húsi atvinnulífsins. Alls bárust sex framboð um almenna stjórnarsetu í stjórn SVÞ en kosið var um þrjú stjórnarsæti fyrir kjörtímabilið 2018 til 2020. Sjálfkjörið er í sæti SVÞ og aðildarfyrirtækja samtakanna í fulltrúaráð Samtaka atvinnulífsins.

Á fundinum var lýst kjöri þriggja meðstjórnenda en þeir eru:

  • Elín Hjálmsdóttir hjá Eimskipum,
  • Gunnar Egill Sigurðsson hjá Samkaupum koma ný inn í stjórnina
  • Jón Ólafur Halldórsson hjá Olís, sem var endurkjörinn.

Aðrir í stjórn SVÞ eru frá fyrra ári:

  • Árni Stefánsson hjá Húsasmiðjunni,
  • Gústaf B. Ólafsson hjá Bitter ehf.
  • Ómar Pálmason hjá Aðalskoðun.

Ráðstefna um framtíðina

Síðar í dag, milli klukkan 14 og 16, halda samtökin svo ráðstefnu á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu undir yfirskriftinni „Framtíðin er núna“. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar er Magnus Lindkvist, framtíðarfræðingur og rithöfundur, sem mun ræða um af hverju fólk er svo slæmt í að hugsa til framtíðar.

Meðal annarra sem verða með ávörp er Lisa Simpson, sérfræðingur frá Deloitte í Dublin, en hún mun ræða um sambland bálkakeðjutækninnar við aðfangakeðjur. Jafnframt mun Margét Sanders, formaður SVÞ, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flytja ávörp.

Kjara- og menntamál stóru viðfangsefnin

Margrét Sanders hefur setið sem formaður samtakanna frá árinu 2014 en kosið er um formann til tveggja ára í senn. „Ég hlakka til að vinna með nýkjörinni stjórn SVÞ að þeim stóru viðfangsefnum sem við okkur blasa ekki síst í kjaramálum og í menntamálum atvinnulífsins,“ segir Margrét Sanders formaður SVÞ.

„Auk þess standa fyrirtæki í verslun og þjónustu nú frammi fyrir miklum breytingum þar sem ný tækni, breytt neysluhegðun, og möguleiki á annars konar nálgun í þjónustu mun hafa afgerandi áhrif á starfsemi fyrirtækja innan okkar raða. Verkefni stjórnarinnar verður því ekki síst að aðstoða fyrirtækin við að aðlaga sig að þeim breytingum sem framundan eru.“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim