Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur ekki ráðlegt að Hanna Birna Kristjánsdóttir setjist á þing að nýju vegna niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í lekamálinu. Einnig telur hún að Hanna Birna eigi að láta af embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta skrifar hún í stöðuuppfærslu á Fasbók.

„Málið er afar alvarlegt að mínum dómi og ég tel að Hanna Birna hafi gert afdrifarík mistök, en þau veigamestu voru afskipti hennar af rannsókn málsins eins og fjallað er um í áliti umboðsmanns,“ segir Elín.

Hún segir hins vegar mikilvægast að stjórnmála- og ráðamenn landsins dragi lærdóm af málinu og axli ábyrgð á mistökum sem þessum gagnvart almenningi í landinu.