Kjúklingastaðurinn Suðurver, sem rekur samnefndan kjúklingastað í Suðurveri, skilaði um ellefu milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Hagnaðurinn er litlu minni en árið 2016 þegar félagið skilaði 12,8 milljóna króna hagnaði.

Félagið seldi vörur og þjónustu fyrir 135 milljónir sem er svo til jafnmikil sala og árið áður. Eignir félagsins minnkuðu milli ára og voru 46 milljónir í lok síðasta árs en 51,1 milljón í lok árs 2016. Handbært fé félagsins lækkaði umtalsvert, úr 33,8 milljónum í 17,4 milljónir.

Fastafjármunir félagsins tvöfölduðust á sama tíma og námu 25,5 milljónum í lok síðasta árs.

Langtímaskuldir félagsins lækkuðu um 5,5 milljónir milli ára og voru 20,7 milljónir í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir lækkuðu um hálfa milljón og standa í 13,8 milljónum. Á aðalfundi félagsins var samþykkt að greiða átta milljónir í arð til eigenda, sem eiga hvort um sig helmingshlut í félaginu.