Tuttugu mál hafa sætt rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra vegna gruns um undanskot tekna vegna afleiðuviðskipta. Ellefu af þessum málum hefur verið vísað til embættis sérstaks saksóknara, sem gefur út ákæru í þeim. Undandregnar fjárhæðir í einstökum málum nemur nokkuð hundruð milljónum króna. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir málið tengt Eiríki Sigurðssyni vegna vantalinna tekna upp á rúmar 800 milljónir króna og gruns um skattsvik hans upp á rúmar 80 milljónir króna meðal stærstu málanna sem hafi verið til rannsóknar.

Eins og vb.is greindi frá í morgun var skattamálið gegn Eiríki þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Hjalti Magnússon er ákærður í sama máli. Embætti sérstaks saksóknara krefst refsingar yfir Eiríki auk þess að Hjalti missi löggildingu sína sem endurskoðandi.

Samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjora sæta nokkur málanna sem hafa verið til rannsóknar kærumeðferð fyrir yfirskattanefnd. Í þeim tilvikum hafi úrskurður ríkisskattstjóra um hækkun opinberra gjalda á grundvelli rannsóknarinnar verið kærður til yfirskattanefndar.