Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum hefur samþykkt framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar í mái. Elliði Vignisson, bæjarstjóri og oddviti listans, mun skipa fimmta sætið en það er að hans eigin beiðni að því er kemur fram í tilkynningu. Hildur Sólveig Sigurðardóttir, mun skipa fyrsta sætið á listanum en Elliði er þó áfram bæjarstjóraefni listans og leiðtogi.

Töluverðar deilur höfðu átt sér stað í aðdraganda þess að valið var á lista en erfitt reyndist fyrir Sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum að koma sér saman um aðferð við val á lista. Upphaflega var talið að farið yrði í prófkjör eftir að flokksmenn höfnuðu uppstillingu. Prófkjör naut þó heldur ekki stuðnings meirihluta í fulltrúaráði félagsins og að endingu var samþykkt að fara í svokallaða röðun. Þá hefur verið rætt um mögulegt klofningsframboð en óvíst er hvort af því verði.

„Að vera leiðtogi snýst ekki um stöðu eða sæti, ætli maður sér að vera leiðtogi verður maður að vera tilbúinn til að hlusta og bregðast við.  Eftir að hafa leitt listann úr fyrsta sæti í 12 ár tek ég alvarlega umræðu um þörfina á valddreifingu.  Ég get að mörgu leyti tekið undir þá skoðun að það fylgir því lýðræðishalli að vera í senn í öruggasta sætinu, vera bæjarstjóraefni, oddviti og sá sem er með langmestu reynsluna.  Þessu vil ég mæta með því að færa mig niður í framboðssæti sem að við lítum á sem sæti varabæjarfulltrúa.  Ég vil líka líta á það sem skref til að skapa aukna sátt að víkja sætis fyrir ungt og nýtt fólk sem annars hefði ef til vill orðið að víkja af vettvangi bæjarmálanna.  Ég kvíði því ekki að leiða listann sem varabæjarfulltrúi enda ríkir mikill einhugur hjá því góða fólki sem skipar framboðlistann.  Saman ætlum við leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs og gera góðan bæ enn betri á komandi kjörtímabili,“ er haft eftir Elliða í tilkynningunni.

Framboðslistinn er eftirfarandi:

  1. Hildur Sólveig Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari
  2. Helga Kristín Kolbeins, skólameistari
  3. Trausti Hjaltason, framkvæmdastjóri
  4. Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri
  5. Elliði Vignisson, oddviti og bæjarstjóri
  6. Margrét Rós Ingólfsdóttir, félagsfræðingur
  7. Sigursveinn Þórðarson, svæðisstjóri
  8. Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri
  9. Andrea Guðjóns Jónasdóttir, sjúkraliði
  10. Gísli Stefánsson, æskulýðsfulltrúi
  11. Agnes Stefánsdóttir, framhaldsskólanemi
  12. Vignir Arnar Svafarsson, sjómaður
  13. Klaudia Beata Wróbel, nemi og túlkur
  14. Bragi Ingiberg Ólafsson, eldri borgari