„Bara svona til að öllu sé til haga haldið þá styrkti Kaupþing Samfylkinguna [um] 10 milljónir króna árið 2006,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, í stöðuuppfærslu á Fasbók .

Þar hlekkjar hann í frétt Kjarnans um þá skoðun Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, að viðhorf Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, til styrkja sjávarútvegsfyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins séu „ótrúleg siðblinda“.

Í frétt RÚV í gærkvöldi kom fram að sjávarútvegsfyrirtæki hefðu styrkt Sjálfstæðisflokkinn um sjö milljónir fyrir síðustu Alþingiskosningar. Í viðtali við RÚV sagði Bjarni ekkert vera að styrkjunum til flokksins.

En Elliði heldur áfram:

„Sama árið styrkti Dagsbrún flokkinn [Samfylkinguna, innsk. blaðamanns] um 5 milljónir, FL-Group um 8 milljónir, Glitnir um 5,5 milljónir, Landsbankinn um 8 milljónir, Actavis um 5,5 milljónir og Baugur um 5 milljónir,“ segir Elliði að lokum.