Líftími fyrirtækja verður sífellt styttri og styttri, og tæknifyrirtæki í Kísildalnum telst ævaforn öldungur ef það nær tíu ára aldrinum.

Meðallíftími fyrirtækis hefur hingað til verið í kringum 40-50 ár, en nýleg könnun sem notaðist við gögn frá þúsundum evrópskra fyrirtækja leiddi í ljós þær niðurstöður að meðallíftíma hefur nú hraknað niður í heil 12,5 ár.

Þrátt fyrir þessa tölfræði eru þó nokkur fyrirtæki sem hafa raunverulega staðist tímans tönn. Heil 967 félög á heimsvísu starfa nú enn þrátt fyrir að hafa verið stofnuð fyrir árið 1700. Það elsta var stofnað árið 578.

Það sem kemur helst á óvart við þessa tölfræði er sú staðreynd að 517 þessara 967 fyrirtækja - rétt í kring um 53% - eru frá sömu þjóðinni. Sú þjóð er Japan, en átta af þeim tíu fyrirtækjum sem eru elst í heimi má finna þarlendis.

Land rísandi sólar og aldraðra fyrirtækja

Í Japan má finna elsta hótelið, elsta bruggara hrísgrjónavíns, og elsta byggingarverktakann sem er jafnframt elsta fyrirtæki heims sem starfar enn - það heitir Kongō Gumi og var raunar keypt upp árið 2006 eftir að hafa orðið gjaldþrota, en starfar enn sjálfstætt undir Takamatsu-verktakasamstæðunni.

Margir hafa spurt sig hvað það er sem veldur þessum ótrúlega líftíma japanskra fyrirtækja, hlutfallslega miðað við afgang heimsins. Þar ber helst að nefna þá staðreynd að þau hafa allflest verið fjölskyldurekin.

Þó er ekki svo að fjölskyldutengsl hafi alið af sér 40 kynslóðir hæfra forstjóra fyrirtækjanna - heldur er vinsælt í Japan að ættleiða til sín fullvaxta menn sem eru hæfir til starfsins. Þannig er hægt að tryggja að fyrirtækið liggi innan fjölskyldunnar en sé einnig vel rekið.

Hvernig verður fyrirtæki mörghundruð ára gamalt?

Þá skrifar hinn hollenski viðskiptafræðingur Arie De Geus bók sem heitir „Hið lifandi fyrirtæki“ (e. The Living Company ), og telur þar upp fjóra eiginleika sem hann telur öll langlíf fyrirtæki eiga sameiginlega:

  • Langlíf fyrirtæki eru næm fyrir umhverfi sínu og héldu jafnvægi og í samhljómi við það frá byrjun til enda.
  • Langlíf fyrirtæki skapa heildrænt umhverfi fyrir starfsfólk sitt, og verður hluti af sjálfsmynd þess. Sama hversu fjölbreyttur starfshópurinn var fannst þeim þau alltaf vera hluti af sömu heildinni.
  • Langlíf fyrirtæki eru umburðarlynd og forðast eftir bestu getu að beita mikilli miðstýringu, en leyfðu heldur fjölbreytileika að ráða för.
  • Langlíf fyrirtæki eru íhaldssöm með fjármagn sitt. Þau eru sparsöm og fóru varlega með að leggja fé sitt í mikla áhættu.

Formálann að bók Arie má lesa á PDF-formi hér, en hann er stuttur og laggóður lestur fyrir allt áhugafólk um fyrirtækjarekstur.