Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, greiðir 453 milljónir króna til aðildarfélaga sinna vegna EM í Frakklandi, en um er að ræða 25% af greiðslunni frá UEFA.

Auknar greiðslur vegna EM

Var samþykkt á ársfundi KSÍ í febrúar að 300 milljónum króna yrði úthlutað til aðildarfélaganna, en í samræmi við auknar greiðslur UEFA til KSÍ vegna EM hefur stjórn félagsins ákveðið að hækka heildarframlagið í 453 milljónir króna.

Jafnframt hefur stjórnin ákveðið hvernig féð skiptist á milli aðildarfélaganna, en skiptingin byggir fyrst og fremst á stöðu meistaraflokks karla og kvenna í deildum síðastliðin 3 ár, það er 2014,2015 og 2016 sem er það tímabil sem Evrópumótið í knattspyrnu náði yfir.

Fylkir, KR, Valur, Víkingur og Breiðablik fá mest

Þau félög sem fá mest, eða 18,2 milljónir króna hver, eru Fylkir, KR, Valur, Víkingur Reykjavík og Breiðablik.

Þar á eftir með rúmlega 17,6 milljónir koma FH og Stjarnan og loks fær ÍBV rétt rúmlega 17 milljónir og Fjölnir tæplega 15,5 milljónir.

Því betri árangur því meira fé

Við úthlutunina er félögunum skipt upp í þrjá flokka. Í þeim fyrsta eru þau 17 félög sem hafa náð bestum árangri í deildarkeppninni, þau fá 181 milljónir króna til skipa. Í öðrum flokki eru þau 30 félög sem þar koma á eftir, þau fá 140 milljónir króna til skiptanna.

Loks er þriðji flokkurinn félög sem ekki standa í barna- og unglingastarfi, en þau fá 2,8 milljónir króna. Að auki fá félögin í 1. og 2. flokki einnar milljónar króna skilyrt framlag vegna þátttöku í sérstöku unglingaþjálfaranámskeiði KSÍ.

Karlar fá 6 milljónir en konur 1 milljón

Loks er 82 milljónum króna úthlutað til félaga í efstu tveimur deildum karla og efstu deildar kvenna vegna markaðsáhrifa Evrópumótsins, fá félög í Pepsi-deild karla fá 4 milljónir króna en félög í Pepsi-deild kvenna fá 1 milljón. Auk þess fá félög í Inkasso-deild karla 2 milljónir króna.

Félögin fá framlög sín greidd í tvennu lagi og er skilyrt að fénu skuli eingöngu varið til knattspyrnutengdra verkefna félaganna.