Óvænt tíðindi bárust frá Rússlandi í gær en þá féllst Vladímír Pútín, forseti, á afsögn ríkisstjórnar Mikahíl Fradkov. Í framhaldinu skipaði forsetinn Victor Zubkov forsætisráðherra. Zubkov er lítt þekktur á Vesturlöndum en hann hefur stýrt fjármálaeftirliti landsins, sem meðal annars rannsakar peningaþvott í fjármálakerfi landsins.

Neðri deild Dúmunnar staðfestir skipun Zubkov á morgun en fram að þeim tíma mun Fradkov vera starfandi forsætisráðherra. Haft var eftir Pútín að nauðsynlegt væri að ráðast í breytingar á valdakerfi landsins þannig að það endurspeglaði betur pólitískan veruleika í aðdraganda og eftirmála þing- og forsetakosninganna sem fara fram í desember næstkomandi og mars á næsta ári.

Óvænt skipun
Mikil óvissa hefur ríkt um hver verði arftaki Pútíns á forsetastóli, það er að segja þróist ekki mál með þeim hætti að gerð verði stjórnarskrárbreyting sem heimilar honum að gegna embættinu áfram. Stjórnmálaskýrendur gera ráð fyrir að sá sem Pútín lýsi á endanum yfir stuðningi við eigi greiða leið til valda. Það kom hinsvegar flestum í opna skjöldu að Pútín skyldi skipa hinn lítt þekkta Zubkov forsætisráðherra svo skömmu fyrir kosningar þar sem litið er á slíka skipun skref í öruggri leið í átt að forsetastólnum. Pútín sjálfur gekk þá leið árið 1999 þegar Boris heitinn Jeltsín skipaði hann forsætisráðherra.

Gert hafði verið ráð fyrir að Pútín myndi annað hvort lýsa yfir stuðningi við Dmitrí Medvedev eða Sergei Ívanov, en þeir eru nánir samverkamenn forsetans og hafa farið með mikil völd í forsetatíð hans og voru báðir skipaðir í embætti aðstoðarforsætisráðherra í fyrra.

Náinn vinur Pútíns
Zubkov, sem er 65 ára gamall, er sagður náinn vinur forsetans en þeir unnu á svipuðum tíma á tíunda áratug síðustu aldar í stjórnsýslu St. Pétursborgar. Hann tengist jafnframt núverandi valdakjarna í Rússlandi fjölskylduböndum en dóttir hans er gift varnarmálaráðherra landsins.


Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag