Þegar Shinzo Abe tók við embætti forsætisráðherra Japans fyrir ári síðan lofaði hann því að undir hans stjórn yrði skapað "fallegt land" og unnið að framgangi japanskrar þjóðhyggju. Eftir fremur óvænta afsögn Shinzo Abe í gær er hins vegar ljóst að sá draumur verður ekki að veruleika - að minnsta kosti ekki í valdatíð hans.

Pólitískt óvissuástand ríkir í Japan í kjölfar þess að forsætisráðherrann boðaði óvænt til fjölmiðlafundar þar sem hann tilkynnti um afsögn sína, aðeins tveimur dögum eftir að þing hafði komið saman á ný eftir að kosið var til efri deildar þingsins í lok júlímánaðar. Valdatíð Abe, frá því hann var kjörinn forsætisráðherra fyrir ári síðan, einkenndist af ítrekuðum hneykslismálum ýmissa ráðherra í ríkisstjórn hans; fjórir ráðherrar sögðu af sér embætti á tímabilinu og einn svipti sig lífi. Það er meðal annars af þeim sökum sem vinsældir Abe og japönsku ríkisstjórnarinnar hafa farið ört minnkandi undanfarin misseri og nýjustu skoðanakannanir gefa til kynna að stjórnin njóti aðeins 30% stuðnings almennings þar í landi.

Veðjað á Taro Aso
Abe sagði ástæðu uppsagnarinnar vera skort á stuðningi almennings við fyrirhugaða hryðjuverkalöggjöf ríkisstjórnarinnar sem miðaði að því að framlengja viðveru japanska flotans í Indlandshafi. Sú viðvera hefur þann tilgang að veita Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra stuðning við að tryggja stöðugleika og vinna að uppbyggingu Afganistans. Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Lýðræðisflokkur Japans (DPJ), hefur mótmælt þessum áformum og sagt þau brjóta gegn ákvæði stjórnarskrárinnar um þær takmarkanir sem kveðið er á um varðandi umfang hernaðarlegra verkefna sem Japan getur ráðist í.

Abe kallaði eftir því á fjölmiðlafundinum að flokkur hans, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn (LDP), myndi kjósa sér nýjan leiðtoga sem allra fyrst svo hægt yrði að veita áðurnefndri hryðjuverkalöggjöf brautargengi á japanska þinginu. Financial Times hefur eftir Taro Aso, fyrrum utanríkisráðherra og aðalritara LDP (sem er næst valdamesta embættið innan flokksins), að flokkurinn muni halda kosningar strax í næstu viku til að koma í veg fyrir að "pólitískt tómarúm" myndist. Flestir veðja á að Aso, íhaldsmaður og jafnframt náinn bandamaður Abe, sé líklegastur til að hreppa forsætisráðherraembættið, en hugsanlegur keppinautur hans um embættið er meðal annarra Sadakazu Tanigaki, fyrrum fjármálaráðherra Japans.

Gæti ýtt undir raunverulegt tveggja flokka kerfi
Tímasetning Abe kom hins vegar bæði stjórnmálaskýrendum og japönskum stjórnmálamönnum á óvart, ekki síst í ljósi þess að fráfarandi forsætisráðherra hafði neitað að segja af sér eftir að LDP-flokkurinn beið afhroð í nýliðnum þingkosningum. Mizuho Fukushima, leiðtogi Sósíalistaflokksins, sakaði Abe um að sýna ábyrgðarleysi með þessari ákvörðun sinni: Hann hefði skellt skollaeyrum við því að láta af embætti í kjölfar kosningaósigursins í júlí, kallað saman þing, haldið mikilvæga stefnuræðu á mánudaginn, en síðan sagt af sér án nokkurar sýnilegrar ástæðu tveimur dögum síðar, sagði Fukushima.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag