Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir að eftir að þak á endurgreiðslum vegna kostnaðar fyrirtækja við rannsóknir og þróun hafi verið hækkað á árinu 2016 hafi meðalendurgreiðslurnar hækkað um 52% á milli ára að því er Morgunblaðið greinir frá.

Þegar þakið var hækkað úr 100 milljónum króna upp í 300 milljónir árið 2016 jukust endurgreiðslurnar samtals um 66% á milli ára en á árinu námu þær 2,7 milljörðum króna.

Á árunum 2012 til 2015 jukust greiðslurnar hins vegar um 11% að meðaltali á milli ára að því er fram kemur í greiningu SI. Nýttu 138 fyrirtæki sér endurgreiðslurnar á árinu 2016 sem er fjölgun um 10% frá fyrra ári.

„Þetta eru skýr merki um að skattalegir hvatar virka til að efla nýsköpun,“ segir Sigurður sem segir mikilvægt að ákvæði stjórnarsáttmálans um afnám þaksins verði sett í lög strax á vorþingi svo markmið um að fjárfesting í nýsköpun og þróun fari úr 2% í 3% markmið vísinda- og tækniráðs líkt og gildir í öðrum löndum.

„Það er mikilvægt að efla rannsóknir og þróun vegna þess að sú vinna skapar um 2-5% framleiðniaukningu hjá hefðbundnum atvinnugreinum og um 20% framleiðniaukningu í iðnaði, samkvæmt nýlegri íslenskri meistararitgerð. Framleiðniaukning merkir að sköpuð eru meiri verðmæti úr hverri vinnustund.“