Mikil uppkaup fyrirtækja á eigin hlutabréfum valda því að hlutabréfamarkaðurinn á alþjóðavísu er að skreppa saman, og hefur ekki gert það hraðar í 20 ár.

Nýskráningar á markað, hlutafjáraukningar, og útgáfa breytanlegra skuldabréfa nær ekki að halda í við endurkaup fyrirtækja, fyrst og fremst í bandaríkjunum, þar sem fyrirtæki kaupa til baka eigin bréf í miklum mæli, þökk sé batnandi afkomu vegna skattalækkana og efnahagslegs uppgangs.

Samkvæmt spám fjárfestingabankans Goldman Sachs munu heildarendurkaup bandarískra félaga ná 1000 milljörðum dollara árið 2018, og setja þar með nýtt met. Rannsóknafyrirtækið Bernstein metur síðan umfang endurkaupa í Vestur-Evrópu, Kanada, Japan og þróuðum ríkjum Asíu upp á um 250 milljarð dollara frá áramótum til júlíloka, en það er tvöföldun frá því í fyrra.

Háttsettur greiningaraðili hjá Bernstein segir í samtali við Financial Times hin miklu endurkaup eiga sér stað á sama tíma og útgáfa nýrra hlutabréfa sé í lágmarki, sem útskýri hvers vegna nettó hlutabréfaútgáfa sé í sögulegu lágmarki.

Heildarmarkaðsvirði alþjóðlega hlutabréfamarkaðarins er þó enn að aukast, þökk sé verðhækkunum hlutabréfa, sem meðal annars má rekja til endurkaupanna. Heildarmarkaðsvirði FTSE All-World vísitölunnar hefur hækkað úr 35 þúsund milljörðum dollara í 57 þúsund milljarða síðasta áratuginn.