Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, telur að Íslendingar eigi að endurskoða afstöðu sína gegn Rússum ef Evrópusambandið er ekki tilbúið að lækka tolla á íslenskar sjávarafurðir.

Jón sagði í Vikulokunum á Rás 1 að íslensk stjórnvöld ættu að endurskoða afstöðu sína til viðskiptaþvingana gegn Rússum ef Evrópusambandið sýnir ekki álíka stuðning og samstöðu og Íslendingar hafi gert.

Spurður að því hvort þetta þýddi að Ísland ætti hugsanlega að ganga út úr aðgerðunum gegn Rússum verði ESB ekki við þessum óskum svaraði Jón: „Ef að samstaðan er ekki ríkari af hálfu bandalagsþjóða okkar, ef sú staða kæmi upp að þeir væru ekki að sýna okkur fulla samstöðu og skilning á okkar stöðu í þessu máli þá hljótum við að taka það inn í myndina varðandi ákvörðun okkar um framhaldið.“