*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 13. desember 2017 16:23

„Engin áform“ um lög á verkfall

Þrátt fyrir að SA segi launakröfur flugvirkja óraunhæfar segir samgönguráðherra málið í höndum deiluaðila þó mikið sé í húfi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra ræddi við deiluaðili í kjaradeilum Icelandair við flugvirkja að eigin frumkvæði að því er RÚV greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa flugvirkjar boðað til verkfalls sem hefst á sunnudaginn ef ekki verður búið að semja, en Samtök atvinnulífsins segja kröfur flugvirkja algerlega óraunhæfa og óttast víðtæk áhrif verkfallsaðgerða.

Sigurður Ingi segir kjaradeiluna þrátt fyrir það vera í höndum deiluaðila. „[Við stjórnvöld] hvöttum þá bara til að ná samningum og það væri mikið í húfi,“ segir Sigurður Ingi sem segist hafa áhyggjur af deilunni. „[J]afnframt [vorum við] að koma þeim skilaboðum á framfæri að ríkisstjórnin hafi engin áform uppi að setja lög á þetta.]

Samtök atvinnulífsins segja samninganefnd sína og Icelandair hafa boðið fram mjög sanngjarnar launahækkanir í takti við það sem aðrir í samfélaginu séu að fá.