*

miðvikudagur, 23. janúar 2019
Erlent 12. janúar 2019 14:03

Lengsta stöðvun í Bandarískri sögu

Starfsemisstöðvun um fjórðungs alríkisstofnana Bandaríkjanna er nú orðin sú lengsta í sögu landsins.

Júlíus Þór Halldórsson
Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti sjónvarpsávarp til þjóðarinnar um málið á þriðjudag, þar sem hann sagði Demókrata á þinginu bera ábyrgð á ástandinu, sem þeir vísuðu umsvifalaust til föðurhúsanna.
epa

Stöðvun á starfsemi um fjórðungs alríkisstofnana Bandaríkjanna vegna skorts á fjárveitingaheimildum er nú orðin sú lengsta sinnar tegundar í sögu Bandaríkjanna. Enn virðist engin lausn í sjónmáli.

Eitt stærsta loforð Donalds Trump Bandaríkjaforseta í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar sem tryggðu honum embættið í nóvember 2016 var að reisa vegg við syðri landamæri Bandaríkjanna, sem liggja að Mexíkó. Mið-Ameríkuríkið myndi svo sjálft fjármagna vegginn, lofaði forsetaframbjóðandinn.

Svo mikið kappsmál var veggurinn fyrir mörgum hans stuðningsmönnum, að sumir þeirra klæddust búningum sem líktu eftir hvítum múrsteinshlöðnum vegg, með áletrunina „Mexíkó mun borga!“.

Kjörtímabilið er nú rétt um hálfnað og enn bólar ekkert á veggnum. Trump virðist þó telja að nú sé tími til kominn að bæta úr því. Þegar kom að því að samþykkja síðustu 5 af 12 fjárveitingarheimildum (hinar 7 voru samþykktar í september) fyrir starfsemi alríkisyfirvalda undir lok síðasta árs lýsti hann því yfir að hann myndi ekki samþykkja slíka heimild öðruvísi en að hún fæli í sér 5,7 milljarða Bandaríkjadala fjárveitingu til byggingar veggjarins, en það samsvarar tæpum 700 milljörðum króna og jafngildir heildarútgjöldum íslenska ríkisins samkvæmt fjárlögum árið 2016.

Varðandi fyrri fyrirheit um að Mexíkó muni greiða fyrir vegginn, segir Trump að ávinningur Bandaríkjanna af nýumsömdum breytingum á fríverslunarsamningi við Mexíkó og Kanada muni duga fyrir kostnaðinum, en hagfræðingar hafa lýst yfir efasemdum um þá fullyrðingu.

Demókratar á þinginu buðust á móti til að veita 1,6 milljarða dala til almenns landamæraöryggis, en því hafnaði Trump, og sagðist stoltur myndu leyfa starfsemi alríkisstofnana að stöðvast, yrði ekki gengist við kröfum hans. Þremur dögum fyrir yfirvofandi stöðvun sendir þingið Trump frumvarp um skammtímafjárveitingu, sem myndi framlengja frestinn til 8. febrúar. Trump sagðist styðja frumvarpið, en daginn eftir snerist honum hugur.

Þann 22. desember hófst svo stöðvunin, sem nú er á sínum 22. degi, og er orðin sú lengsta í sögu Bandaríkjanna. Sú sem áður var lengst átti sér stað árið 1995-96 og varði í 21 dag.

Níu ráðuneyti og 800 þúsund starfsmenn
Stöðvunin felur í sér að um það bil fjórðungur stofnanna alríkisyfirvalda er nú fjármögnunarlaus, og 800 þúsund ríkisstarfsmenn fengu því ekki greidd laun um áramótin. Alríkisstofnanir um allt land hafa því lagt niður allt nema bráðnauðsynlegustu starfsemi. Alls nær stöðvunin til níu ráðuneyta, en þau eru ráðuneyti öryggismála, landbúnaðar, viðskipta, dómsmála, húsnæðismála, innanríkismála, utanríkismála, samgöngumála og fjármála.

Flestir starfsmenn eru sendir í ótímabundið leyfi, en þeir sem taldir eru ómissandi eru látnir halda störfum áfram launalaust. Vonir standa til að þeir fái greitt afturvirkt þegar starfsemin kemst í eðlilegt horf á ný, en það er allskostar óvíst eins og sakir standa. Vart þarf að taka fram að þeir opinberu starfsmenn sem um ræðir eru ekki ýkja ánægðir með það, og höfðað hefur verið mál gegn ríkinu fyrir hönd um 400 þúsund slíkra starfsmanna fyrir brot á vinnumarkaðslögum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Trump Donald