Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 6. október 2008 um að innstæður sparifjáreigenda og fyrirtækja í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum hér á landi verði tryggðar að fullu felur í sér „skuldbindandi stefnu“ stjórnvalda. Þetta segir í ríkisreikningi ársins 2015 sem birtur var á dögunum. Þó að ábyrgðin sé ekki talin með skráðum ríkisábyrgðum í ríkisreikningi er bent á það í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2012 að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar gæti mögulega skapað „lögmætar væntingar“ ef við hana er ekki staðið.

Það að lögfesta ekki umrædda ábyrgð virðist vera í ákveðinni andstöðu við lög um ríkisábyrgðir. Þar segir berum orðum að ríkissjóður megi aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar nema heimild sé veitt til þess í lögum. Þá er ríkissjóði óheimilt, samkvæmt sömu lögum, að takast á hendur ríkisábyrgð nema með tilteknum skilyrðum, meðal annars að ábyrgðarþegi leggi fram viðeigandi tryggingar.

Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu um ríkisábyrgðir í fyrra. Ekki er fjallað sérstaklega um skuldir fjármálastofnana í skýrslunni en þar kemur hins vegar fram að reynslan hefur sýnt að tiltekin ákvæði laga um ríkisábyrgðir eru „ýmist óvirk eða erfið í framkvæmd“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .