*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 18. ágúst 2018 17:01

Engin orrusta framundan

Framkvæmdastjóri Sambands atvinnulífsins segir að samband launahækkana og verðbólgu hafi sannarlega ekki verið rofið.

Trausti Hafliðason
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Haraldur Guðjónsson

Fulltrúar heildarsamtaka atvinnulífsins funduðu með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra og Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra í ráðherrabústaðnum á mánudaginn. Var þetta fyrsti fundur þessara aðila eftir sumarfrí en frá áramótum eru fundirnir nú orðnir tíu talsins.

Ástæða fundarins var að um áramótin losna um 80 samningar en megnið af þeim eru samningar á almenna markaðnum — samningar milli aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA).

Óþarfi að draga viðræðurnar

Þó samningarnir losni ekki fyrr en um áramótin eru óformlegar viðræður hafnar að sögn Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA.

„Það má segja að viðræður hafi verið í gangi í nokkurn tíma en það er ekkert fast í hendi,“ segir Halldór Benjamín. „Þegar samningar renna út um áramót þá hafa þeir, sögulega séð, verið að tefjast fram undir páska eða jafnvel fram í maí. Mín afstaða er sú að best sé að einhenda sér í hlutina strax í stað þess að vera að draga viðræðurnar svona lengi. Það sem aðilar hafa verið að gera núna, eða ég vona það, er að finna lausnir á málum sem á ekki að þurfa að vera mikill ágreiningur um. Ég held að það sé almennt gott vinnulag að reyna að klára það sem hægt er að klára og láta þá hitt standa út af.

Spurður hvort hann geti nefnt einhver dæmi um það hvað samningsaðilar hafi rætt um hingað til svarar hann: „Nei, það er algjörlega ótímabært. Þetta eru einstaka mál sem varða minni bókanir í kjarasamningum.“

Samband launahækkana og verðbólgu

„Nú í ágúst og september finnst mér mikilvægt að fá heildstæða mynd af því hvar við erum stödd í hagsveiflunni og hvernig staðan er í atvinnulífinu. Þá sjáum við hvað verður til skiptanna og getum tekið umræðuna um það hvernig við eigum að skipta því.“

Halldór Benjamín segir að í aðdraganda kjarasamninganna árið 2015 hafi hagfræðingar allra heildarsamtakanna skrifað minnisblað, þar sem fram kom ákveðin verðbólguspá sem miðaði við þær launahækkanir sem kjarasamningarnir síðan kváðu á um.

„Það er skemmst frá því að segja að þeir gerðu ráð fyrir verulegri verðbólgu árin 2016, 2017 og 2018, sem ekki raungerðist. Nú er það hljóð komið í strokkinn víða að það sé ekkert að marka verðbólguspár. Hafa verður í huga að hagfræðingar allra heildarsamtakanna kvittuðu undir þetta minnisblað, ekki bara atvinnurekenda.

Nú þarf fólk að átta sig á því að við höfum ekki frítt spil, samband launahækkana og verðbólgu hefur sannanlega ekki verið rofið. Þessi meðbyr sem við fengum í kjölfar samninganna 2015 mun ekki endurtaka sig — það féll í raun allt með okkur síðast. Krónan mun ekki styrkjast um 30% eins og hún hefur gert, viðskiptakjör verða ekki jafn hagstæð og þau hafa verið, olíuverð verður ekki jafn lágt og það varð og hvorki Costco-áhrifin né afnám tolla og vörugjalda munu endurtaka sig.“

Eitt skref aftur á bak

Halldór Benjamín segir að til að sækja fram sé stundum skynsamlegast að taka eitt skref aftur á bak.

„Sögulega séð höfum við alltof oft tekið of stórt skref fram á við þegar við erum á toppi hagsveiflunnar. Á endanum hafa allir tapað á því. Hagsagan er full af dæmum sem sanna þetta.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim