Rætt var við Ara Kristinn Jónsson, rektor HR, í Viðskiptablaðinu í vikunni. Þar ræddi hann meðal annars þær breytingar sem er að vænta samhliða fjórðu iðnbyltingunni.

Ari Kristinn virðist ef til vill hafa verið töluvert á undan sinni samtíð þegar hann sérhæfði sig í gervigreind og þeim möguleikum sem hún hefur upp á að bjóða. Í allri umræðunni um fjórðu iðnbyltinguna og til dæmis sjálfkeyrandi bíla er ljóst að þáttur gervigreindar verður fyrirferðarmikill.

„Þetta eru hlutir sem við hugsum oft um í mínu fagi. Gervigreind útvíkkar möguleikana á að nýta sjálfvirkni, án þess að gera í sjálfu sér eitthvað sem fólk gat ekki gert fyrir. Tækifærin í kringum þetta eru hins vegar ótrúleg. Það er gott að horfa á þetta út frá sjálfkeyrandi bílum því það er svo auðvelt fyrir flest okkar að tengja við þá,“ segir Ari Kristinn.

„Hugsum okkur hvað breytist þegar bílar eru almennt orðnir sjálfkeyrandi. Það er ekki bara að bíllinn minn keyri sjálfur heldur eru allar líkur á að ég eigi ekki bíl. Það er engin ástæða fyrir mig að eiga sjálfvirkan bíl, sem getur gert gagn 24 tíma á sólarhring en situr á bílastæði í 22 og hálfan tíma. Þá förum við frá því að allir þurfi að eiga bíla yfir í að engir þurfi að eiga bíla. Bílarnir vinna allan sólarhringinn við að keyra fólk eða vörur,“ segir Ari Kristinn.

„Þetta býr til alveg ný tækifæri í því hvernig við hugsum um að komast milli staða og hvernig við komum vörum milli staða. Byltingin sem það hefur í för með sér er mjög umfangsmikil. Tökum nú þessa sömu mynd, þar sem við kollvörpum því hvernig við eigum hlutina, hvernig við notum þá og hvernig við vinnum við hlutina, og færum það yfir á næstum allt annað. Þetta er ekki bylting sem er einangruð við tæki og tól eins og bíla. Eitt af því sem við horfum til og hefur verið rannsakað í tuttugu ár, er hvernig má nýta gervigreind við umönnun, til dæmis umönnun aldraðra, sjúkra og til að veita t.d. öldruðu og fötluðu fólki meira sjálfstæði. Tækin koma þó ekki í staðinn fyrir mannfólkið heldur sinna þau því sem er fyrir mannfólkinu endurtekningaverk. Þá er hægt að nýta mannfólkið í það sem mannfólkið er best í, sem er að eiga samskipti. Við getum losað um fullt af tíma og nýtt hann betur.“

Getum gert svo miklu meira

„Maður heyrir reglulega áhyggjur af því að störf hverfi og að fólki verði ýtt til hliðar,“ segir Ari Kristinn. „Málið er, eins og ég og margir aðrir sjáum þessa tæknibyltingu, að með henni fáum við fyrst tímann sem við þurfum til að vinna vinnuna sem okkur langar að vinna og erum virkilega góð í. Það er til dæmis ótrúlegt hve stór hluti umönnunar fer í endurtekna handavinnu. Ef allur tíminn færi í samskipti og í að nýta mannlega færni, þá gætum við gert svo miklu meira. Það eru tækifærin sem ég sé. Þau eru ótrúleg fyrir mannkynið í heild en sérstaklega á Íslandi.“

p.p1 {margin: 0.0px 0.0px 0.0px 0.0px; font: 14.0px Calibri; color: #101010; background-color: #fff6f0} span.s1 {font-kerning: none} span.s2 {text-decoration: underline ; font-kerning: none; color: #1f5cb8}

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .