Lars Nielsen, sérfræðingur Ericsson um næstu kynslóð farsímakerfa, svokallað 5G kerfi, segir væntanlega upptöku kerfisins á næstu árum síðustu eiginlegu kynslóðaskiptin í farsímatækninni í fyrirsjáanlegri framtíð.

Lars segir að auk þess að nýja tæknin muni opna fyrir sjálfkeyrandi bíla og hið títtnefnda alnet hlutanna, þá komi margt annað til sem ekki er búið að hugsa út í enn þá, á sama hátt og fáir sáu fyrir sér komu Spotify, Instagram, Snapchat og GPS tækni í farsíma þegar 3G staðallinn var tekinn upp.

Þó sé aðalástæðan fyrir upptöku kerfisins aukin almenn notkun, þar sem myndbönd taka langmesta plássið.

„Ný kynslóð af farsímakerfum hefur komið fram á um það bil tíu ára fresti, en við tökum jafnframt þátt í því að gera staðlana. Sagan hingað til hefur verið að farið var frá fyrstu kynslóðinni, 1G, sem var hliðræn, til 2G sem var GSM-kerfið, sem var í raun bara það sama og áður, nema búið var að færa talið í stafrænt form, og svo kom 3G sem var fyrsta skrefið í áttina að því að tengja símkerfið alnetinu,“ segir Lars Nielsen, yfirmaður viðskiptaþróunar og tækni hjá Ericsson.

Hann hélt nýlega fyrirlestur á morgunverðarfundi hér á landi þar sem spurt var hvort Ísland væri tilbúið fyrir internet hlutanna og 5G tæknina.

Notkunarmöguleikar munu koma á óvart

„Þegar 3G kerfið kom fram spurðum við okkur auðvitað vegna kostnaðarins við að setja það upp, í hvað það myndi helst nýtast, og þá hafði enginn hugmynd um tilkomu snjallsímanna. Fólk taldi augljóst að þetta yrði helst notað í myndavélasíma, en á annan hátt en við þekkjum í dag, meira eins og landlínusímar eru, en staðreyndin er sú að sú tækni var ekkert nýtt að neinu viti.“

Lars segir lærdóminn vera að það komi alltaf einhverjir aðilar, aðrir en farsímafyrirtækin sjálf, með nýjar lausnir sem geti nýtt þessa nýju tengimöguleika sem felast í 5G kerfinu.

„Auðvitað reynum við að átta okkur á hvernig þessir nýju möguleikar munu verða nýttir, og við höfum komið fram með nokkur svör, en ég efast um að það verði allt eins og við sjáum það eftir fimm ár. Ég held þvert á móti að það muni koma okkur á óvart hvernig þetta verður notað, alveg eins og við urðum hissa á því hvernig snjallsímarnir hafa þróast,“ segir Lars sem þó segir það ekki vera aðalröksemdarfærsluna fyrir því að taka upp fimmtu kynslóð farsímakerfa.

Kynslóðir skilgreindar eftir getu

Lars segir að kynslóðarbreytingarnar svokölluðu í farsímakerfum í dag snúist meira um skilgreiningar á getu, heldur en eins og var til að byrja með þegar þær táknuðu algera umskiptingu í tækninni. Þar má nefna hluti eins og hraða, líftíma rafhlaðna og tengigetu á ferkílómtera.

„Til dæmis erum við að þúsundfalda tengihraðann frá 4G, fjöldi „Internet of Things“ vélbúnaðar sem hægt er að tengja á einum ferkílómetra þarf að vera 1 milljón, og „latency“, það er tíminn sem það fer á áfangastað frá því að þú sendir merkið, ætti að vera 1 millisekúnda. Í dag er það um 20 til 40 millisekúndur,“ segir Lars.

„Það eru nú vangaveltur í gangi um að 5G verði síðasta kynslóðin sem komi fram, þó ég viti nú ekki hvort það sé alveg satt. En venjulega er það tíu ára ferli að þróa næstu kynslóðarbreytingu, og þá værum við að vinna að því nú þegar, en hvorki við né neinir aðrir eru að því. Hugmyndin er nú sú að við séum komin með kerfi sem getur þróast og bætt við sig nýjum möguleikum og því þurfi ekki kynslóðarbreytingu. Ég er þar með ekki að segja að allt sem við erum að fá inn núna muni duga okkur út ævina, heldur verður líklega hægt að þróa kerfið hægt og rólega með því að bæta nýju möguleikunum inn.“

Nánar má lesa um málið í Frjálsri verslun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .