Í fasteignablaði Viðskiptablaðsins er rætt við forstjóra og framkvæmdastjóra íslensku fasteignafélaganna Eikar, Regins og Reita. Þrátt fyrir mikla styrkingu krónunnar og þau skref sem stjórnvöld hafa verið að taka í átt að losun fjármagnshafta, virðist ekkert fasteignafélag vera í útrásarhug.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, segir að félagið hafi hingað til ekki mótað sér stefnu varðandi fjárfestingar erlendis. „Ég fagna afnámi hafta og tel að áhrifin verði verulega jákvæð. Ég ætla ekkert að útiloka það að Eik fjárfesti erlendis í framtíðinni. Aftur á móti hefur það engan veginn verið stefnan í dag.“

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, telur afnám hafta og styrkingu krónunnar vera forsendu fyrir frekari vexti. „Það eru gríðarleg tækifæri fólgin í þessum skrefum. Það er langt í það að menn fari að fjárfesta í fasteignum erlendis, aftur á móti hafa erlendir aðilar verið að sýna áhuga á að kaupa sig inn á íslenskan hlutabréfamarkað. Við erum að breyta ársreikningum og uppgjörum yfir á tungumál sem eru öllum skiljanleg.“

Kristófer Þór Pálsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Reita, taldi stöðu Reita svipaða. Að hans sögn er enginn í virkilegum útrásarhug. „Hér eru allskyns takmarkanir á inn- og útflæði. Það er auðvitað verið að aflétta höftum, en því fylgja talsverð skilyrði.“