Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu vegna umræðu í fjölmiðlum um frágang á skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um eignir Íslendinga á aflandssvæðum.

Ráðuneytið fór vandlega yfir ferlið við vinnu skýrslunnar og í kjölfarið kom eftirfarandi í ljós að sögn Fjármála- og efnahagsráðuneytisins: „Enginn texti í skýrslunni var „hvíttaður“, eins og fullyrt var í fjölmiðlum. Eftir að skýrslunni var skilað til ráðuneytisins um miðjan september var henni ekki breytt efnislega. Hins vegar voru gerðar smávægilegar lagfæringar af eða í samráði við formann starfshópsins, m.a. á titli hennar. Titillinn var skrifaður í textabox sem er af ákveðinni stærð. Þar sem lagfærður titill var lengri en upphaflegur titill færðist textinn niður og varð lengri en stærð textaboxins leyfði. Því færðist hluti undirfyrirsagnarinnar og annar texti niður og af þeim sökum féll dagsetning af forsíðunni.

Ráðuneytið áréttar að aldrei voru áhöld um hvenær vinnslu skýrslunnar lauk. Skýrt er tekið fram í skýrslunni að henni hafi verið skilað er liðið var á september. Loks vísar ráðuneytið til þess að vanalegt að setja dagsetningu þess dags eða mánuðar þar sem viðkomandi rit eru birt, og því hefði verið réttast að á forsíðu hennar stæði janúar 2017.“