Einar Hermannsson framkvæmdastjóri AFA JCDecaux á Íslandi segir óraunhæft að sala á auglýsingum geti staðið straum af strætóskýlum í borginni að því er Morgunblaðið greinir frá. Hvað þá af leigu á borgarlandi til viðbótar sem ekki þekkist annars staðar.

Ekkert fyrirtæki bauð í uppsetningu og viðhald strætóskýla í Reykjavík fyrir komandi tímabil en fyrirtækið hefur haft samninginn undanfarin ár. Segir Einar ástæðuna vera að verkefnið sé mun dýrara en Reykjavíkurborg reikni með.

„Við buðum ekki í verkefnið. Það var af þeirri einföldu ástæðu að þetta var of dýrt,“ segir Einar en boðin voru út að lágmarki 210 biðskýli og að hámarki 50 auglýsingastandar til viðbótar. „Einnig gerði Reykjavíkurborg kröfu um leigu á borgarlandi fyrir öll strætóskýlin. Það þekkist hvergi annars staðar.“