Ástæða þess að sum þeirra vikublaða sem Björn Ingi Hrafnsson, eigandi Vefpressunnar keypti á síðasta ári, hafa ekki komið út síðan í júní síðastliðnum er að ekki hafa fundist auglýsingasölumenn til að selja í blöðin. Í kjölfar einhliða tilkynningar Póstdreifingar þurfti að færa útgáfudaga blaðanna fram í vikuna.

Staðfestir Björn Ingi í samskiptum við Viðskiptablaðið að útgáfu blaðanna sem bera nöfn eins og Reykjavík, Garðabær og Hafnarfjörður hafi ekki verið hætt í en samanlagt gefur hann út 12 vikublöð.

Einhliða breytingar Póstdreifingar koma þeim illa

Blöðin Akureyri, Vestfirðir, Vesturland, Austurland, Suðri og Reykjanes hafa hins vegar öll komið út reglulega á árinu en Björn Ingi segir meginástæðuna fyrir útgáfuhlé höfuðborgarblaðanna vera einhliða breytingar hjá Póstdreifingu.

Póstdreifing hafi gert einhliða breytingar á dreifingardögum blaðanna til að koma til móts við aukin verkefni í kjölfar þess að Fréttatíminn fór að koma út þrisvar í viku, fimmtudaga, föstudaga og laugardaga.

Það hafi komið þessum blöðum illa að þurfa að koma út fyrri part vikunnar. Segir Björn Ingi ekki vera spennandi að koma með blað t.d. á þriðjudegi, því erfiðara sé að selja auglýsingar í slíkt heldur en í helgarblað.

Skorið úr ágreiningi við Póstdreifingu fyrir dómstólum

Milli Vefpressunnar og Póstdreifingar sé því ágreiningur, vegna einhliða tilkynningar þeirra, sem væntanlega verði skorið úr fyrir dómstólum.

Björn Ingi staðfestir að stefnt sé að útgáfu blaðanna á nýju ári, en hann segir samkeppnina vera harða og menn vilji frekar bíða með útgáfuna en að tapa henni. Ekkert starfsfólk er í fastri vinnu á blöðunum.