*

laugardagur, 18. ágúst 2018
Innlent 12. mars 2018 16:46

Engir miðar í almennu sölunni

Ekki verða seldir miðar í almennu miðasölu FIFA á leik Íslendinga og Argentínu en sá fasi miðasölunnar hefst á morgun.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Engir miðar verða til sölu á leik Íslands og Argentínu í almenna fasa miðasölunnar hjá FIFA sem hefst á morgun. Leikurinn er annar af tveimur þar sem ekki verða seldir miðar í almenna fasanum en hinn er úrslitaleikurinn að því er The Associated Press greinir frá.

Miðasölukerfi FIFA á leiki heimsmeistaramótsins verður að teljast nokkuð flókið og jafnvel ógegnsætt. Í fyrsta lagi fór fram fyrsti fasi miðasölunnar þann 16-28. nóvember en þar seldust yfir milljón miðar. Í öðrum fasa er þjóðunum sem keppa leikina úthlutað 8% af heildarmiðafjölda sem seldir eru stuðningsmönnum hvors liðs fyrir sig. Þá er Rússum, sem halda keppnina, úthlutað tilteknum fjölda miða en í tilviki Argentínuleiksins eru allir miðar á svæði fjögur í höndum Rússa þó óvíst sé hversu margir þeir eru. Að lokum eru miðar seldir í þriðja fasa sem er almenna miðasalan hjá FIFA en engir miðar verða seldir leik Íslands og Argentínu í þeim fasa líkt og sagði hér að ofan.

Í frétt AP segir að einhverjir miðar gætu enn verið í höndum knattspyrnusambanda landanna þ.e. argentínska knattspyrnusambandsins og KSÍ en samkvæmt upplýsingum frá KSÍ er afar óverulegt magn miða í höndum þeirra og þeir munu ekki fara í sölu.

Spartak völlurinn þar sem leikur Íslands og Argentínu fer fram tekur 43.000 manns.