Það er „mjög líklegt” að breska hagkerfið hafi nú þegar runnið inn í samdráttarskeið og Mervyn King, seðlabankastjóri, útilokar ekki að stýrivextir verði á einhverjum tímapunkti engir.

Ársfjórðungsskýrsla Englandsbanka um verðbólguhorfur kom út í dag og segja má að í henni sé sleginn drungalegur tónn.

Samkvæmt spá bankans mun verðbólga lækka hratt á næsta ári og verða kominn niður í 2% um mitt árið.

Spáin endurspeglar væntingar um sársaukafulla verðhjöðnun en samkvæmt breska blaðinu Financial Times þá útilokar King ekki að mælikvarðar sem sýna þróun verðlags og innihalda húsnæðisliðinn verði neikvæð á næsta ári.

Á fundi með blaðamönnum eftir að skýrslan var birt gaf King það til kynna að það væri mögulegt að stýrivextir muni lækka mikið, en í dag eru þeir 3%.

Í skýrslunni er spáð að landsframleiðsla muni dragast saman á bilinu 1-2% á næstu fjórðungum þangað til að jafnvægi verður náð við lok næsta árs en þá er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði flatur.

Hinsvegar er gert ráð fyrir að hagvöxtur fari vaxandi árið 2011 og verði yfir sögulegu meðaltali. Væntingarnar byggja á þeirri forsendu að stýrivextir leiði til þess að aðgengi að fjármagni muni aukast samhliða lægra heimsmarkaðsverði á orku og matvælum, veikara gengi sterlingspundsins og aukinnar þenslu í ríkisútgjöldum.

Samkvæmt frétt Financial Times var King ítrekað spurður á blaðamannafundinum hvort að mistök hafi verið gerð við stjórn peningamálastefnunnar á undanförnum mánuðum.

Sem kunnugt er þá hefur Englandsbanki verið gagnrýndur af mörgum fyrir að hugsanlega ofmeta afleiðingar af verðbólgu sem hefur verið knúinn áfram af hækkunum á heimsmarkaðsverði á hrávöru og að sama skapi vanmeta þá ógn sem kreppan á fjármálamörkuðum er við hagvöxt í landinu.

Seðlabankastjórinn neitaði hinsvegar að svara slíkum spurningum og spurningum um hvort að stefnusmiðir Englandsbanka hefðu lært einhver ný sannindi að undanförnu.

Í síðustu viku kom Englandsbanki öllum í opna skjöldu þegar hann lækkaði stýrivexti um 150 punkta.