Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,15% í 3,2 milljarða króna heildarviðskiptum í kauphöllinni í dag. Fór hún upp í 2.092,63 stig við hækkunina, og hefur hún ekki endað hærra frá því að vísitalan var endurreist eftir hrun.

Í lok síðasta mánaðar sagði Viðskiptablaðið frá því að vísitalan hafi hækkað um fimmtung frá áramótum og náð sínum hæstu hæðum, en nú hefur það met verið slegið. Á föstudag fór hún hæst í 2.092,11 stig, en endaði þá í 2.090,63 stigum.

Gengi bréfa Icelandair hækkaði mest, eða um 3,09% í 118 milljóna króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins í 9,34 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Reita, sem hækkuðu um 2,17%, upp í 84,80 krónur, í 222 milljóna króna viðskiptum.

Gengi bréfa Sýnar lækkaði hins vegar mest, eða um 1,16% í 55 milljóna króna viðskiptum, og nam gengi bréfanna 34,20 krónum við lok viðskipta dagsins. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Sjóvá, eða 0,57%, en í vart teljandi viðskiptum, og fór gengi béfanna niður í 17,50 krónur.

Þriðja mesta lækkunin var svo á gengi bréfa Eimskipafélags Íslands, eða um 0,53% í 20 milljóna króna viðskiptum, niður í 187,00 krónur.

Kvika sló út Marel

Mestu viðskiptin voru með bréf Kviku banka, eða fyrir 674 milljónir króna, og hækkuðu þau um 0,26%, upp í 11,52 krónur í viðskiptunum. Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Marel, eða fyrir 630 milljónir króna,  en bréf félagsins hækkuðu um 1,22%, upp í 583,00 krónur.

Íslenska krónan lækkaði gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, í viðskiptum dagsins. Þannig styrktist gengi japanska jensins mest, eða um 1,07%, upp í 1,1053 krónur, í viðskiptum dagsins, en gengi Bandaríkjadals hækkaði næstmest gangvart krónunni, eða um 0,64%, og fæst hann nú á 121,98 krónur.

Loks hækkaði Evran, sem og Danska krónan sem fylgir Evrunni, um 0,44% gagnvart krónunni, og fæst evran því nú á 136,35 krónur, en danska krónan á 18,263 krónur.

Einn skuldabréfaflokkur í 1,2 milljarða viðskiptum

Markaðsvísitala Gamma hækkaði um 0,36%, í 185,411 stig, í tæplega 9,8 milljarða viðskiptum dagsins. Skuldabréfavísitala fyrirtækisins hækkaði um 0,17%, og tók gildið 373,111, í 4,8 milljarða viðskiptum, en hlutabréfavísitalan fór í 481,231 stig eftir 1,01% hækkun í tæplega 3,1 milljarða viðskiptum.

Mestu viðskiptin voru með ríkisskuldabréfin RB25 0612, eða fyrir 1,2 milljarða, en bréfin lækkuðu í virði um 0,34% og nam lokakrafa þeirra 4,17%.