Eigendur aflandskrónueigna býðst að kaupa evrur til 1. nóvember komandi, á verðinu 220 krónur á móti einni evru.

Í dag birtist tilkynning þess efnis á vef Seðlabankans, en viðskiptabeiðnir skulu berast Seðlabankanum eigi síðar en í lok dags 1. nóvember. Áskilur bankinn sér 10 viðskiptadaga til að ganga frá uppgjöri vegna viðskiptabeiðnanna.

Höfnuðu genginu 190 krónur fyrir evruna

Í lokaútboði Seðlabankans sem bankinn hélt 16. júní síðastliðinn féllst bankinn á viðskipti sem námu 72 milljörðum króna af þeim tæplega 178 milljörðum sem boðnir voru út í útboðinu. Gengið sem aflandskrónueigendunum bauðst að kaupa evrur á var 190 krónur hver evra. .

Þegar tilkynnt var um útboðið var gert ráð fyrir því að verðlagningin yrði á stígandi skala , þar sem aflandskrónueigendur myndu einungis fá að kaupa evrur á 210 krónur ef tilboð sem myndu berast yrðu milli 0 til 50 milljarða króna, en færi svo lækkandi eftir því sem fleiri tækju þátt í útboðinu.

Úboðsskilmálum breytt

Áttu aflandskrónueigendum upphaflega einungis að bjóðast að kaupa evruna á 190 krónur að því gefnu að tilboðin sem myndu berast væru að andvirði 175 milljarðar eða meira. Síðar voru nokkrar breytingar gerðar á útboðsskilmálunum þar með talið áréttaði Seðlabankinn að hann gæti ákveðið hagstæðara útboðsverð en tiltekin væri í töflunni.

Ef farið hefði verið eftir skilmálunum í töflunni hefði aflandskrónueigendunum boðist að kaupa evruna á 200 krónum miðað við þátttökuna í tilboðinu.

Bauðst áfram að kaupa á 190 krónur

Gjaldeyrisforði Seðlabankans minnkaði upphaflega við útboðið um rúma 47 milljarða króna, en aflandskrónueigendum var gert kleyft að halda áfram að kaupa evrur á genginu 190 krónur í kjölfar tilboðsins.

Þann 29. júní síðastliðinn birti Seðlabankinn síðan endanlegar tölur þar sem gjaldeyrisforðinn hafði í heildina minnkað um 54 milljarða króna, að teknu tilliti til kaupa þeirra sem tóku boðinu.

Býðst óhagstæðara gengi til 1. nóvember

Nú geta þeir sem eftir setið enn sem komið er keypt evrur til 1. nóvember komandi, en þá á mun óhagstæðara gengi en bauðst í útboðinu, eða 220 krónur hverja evru. Ljóst er að nokkrir stórir vogunarsjóðir tóku ekki þátt í útboðinu.