Þýska efnaiðnaðarfyrirtækið Bayer AG hefur enn hækkað tilboð sitt í Monsanto Co., nú í 129 Bandaríkjadali hvern hlut, og er nú loksins að nálgast það markmið sitt að ná í gegn þessum 65 milljarða dala yfirtökusamningi á útsæðisframleiðandanum bandaríska.

Hækkunin bætir enn við tilboðið sem í síðustu viku hljóðaði upp á 127,50 dali hvern hlutur, sem var hækkun frá því í júli þegar fyrirtækið bauð 125 dali hvern hlut.

Búist við samþykki

Búst er við að stjórn Monsanto samþykki samrunann og í dag hittist stjórn Bayer til að samþykkja samninginn. Tilkynningar er að vænta fyrir opnun markaða.

Þýska fyrirtækið hefur reynt að komast yfir það bandaríska núna síðan um miðjan maímánuð, en við samrunann yrði til stórfyrirtæki í framleiðslu á útsæði og skordýraeitri.

Sekt ef ekki samþykkt

Tilboðið nú er 22% hærra en lokaverðið á hlutabréfum í Monsanto á þriðjudag, sem var 106,10 dalir, en undir þeim 130 dölum á hlut sem bandaríska fyrirtækið, hvers höfuðstöðvar eru í St. Lous, var að vonast eftir að fá. Það er einnig undir þeim 135-140 dölum sem sumir greinendur höfðu sagt að væri mögulegt að fá.

Þýska fyrirtækið er jafnframt að bjóða þrjá milljarða í sektargreiðslu til Monsanto ef samruninn verður stöðvaður af samkeppnisyfirvöldum, sem er tvöföldun frá fyrra boði sem nam 1,5 milljörðum.