Atvinnuleysi mældist 8,2% í Bandaríkjunum í júní og hefur það verið nær óbreytt síðastliðna tvo mánuði, samkvæmt upplýsingum bandarísku vinnumálastofnunarinnar. Fyrirtæki bættu við sig fólki í mánuðinum á meðan hið opinbera fækkaði við sig og því fjölgaði störfum aðeins um 80 þúsund á milli mánaða. Væntingar voru uppi um að fjölgunin yrði nær 100 þúsundunum.

Í netútgáfu USA Today segir ljóst að aðgerðir ríkisstjórnar Baracks Obama Bandaríkjaforseta sem eiga að blása lífi í efnahagslífið og draga úr atvinnuleysi ekki hafa skilað þeim árangri sem til var ætlast. Dragi ekki úr atvinnuleysinu í sumar megi búast við því að hann missi stuðningsmenn yfir til Mitt Romney, framboðsefnis Repúblikana í forsetaslagnum vestra í nóvember.

Chris Jones, sérfræðingur hjá verðbréfafyrirtækinu TD Economics, segir í samtali við USA Today, að staðan bjóði upp á að bandaríski seðlabankinn grípi til aðgerða í næsta mánuði með það fyrir augun að koma atvinnumarkaðnum í gang á nýjan leik.