Byggingavörufyrirtækið Bauhaus á Íslandi skilaði 113 milljóna króna tapi á síðasta rekstrarári, samanborið við 63 milljóna króna tap árið áður. Rekstrartekjur félagsins námu tæplega 2,8 milljörðum króna samanborið við 2,6 milljarða króna árið áður. Rekstrartap nam 34 milljónum króna samanborið við 236 milljónir árið áður. Rekja má helming af tapi ársins 2017 til neikvæðs gengismunar upp á 65 milljónir króna en árið áður var gengismunur jákvæður upp á 232 milljónir.

Eignir félagsins námu 1,5 milljörðum króna um síðustu áramót og eigið fé nam um 171 milljón króna. Skuldir félagsins námu samtals 1,3 milljörðum króna í árslok 2017. Laun og launatengd gjöld til starfsmanna námu 494 milljónum króna, en 69 starfsmenn störfuðu hjá félaginu að meðaltali í lok síðasta árs. Bauhaus á Íslandi er nánast alfarið í eigu BAHAG Baus Beteiligungsgesellschaft sem á 99% hlut í félaginu.