Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) fundaði í gær en tilefnið er að forsendunefnd ASÍ og Samtaka atvinnulífsins þarf að ákveða fyrir lok mánaðar hvort sá brestur sem orðið hefur á forsendum kjarasamnings samtakanna eigi að leiða til uppsagnar hans. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur boðað til formannafundar aðildarfélaga ASÍ á miðvikudaginn. „Það er okkar skoðun að forsendurnar séu brostnar en það á eftir að botna þetta betur í forsendunefndinni,“ segir Gylfi. „Það er hins vegar enn tími til að bregðast við,“ segir Gylfi og vísar til þeirra daga sem eftir eru af febrúarmánuði. „Það varð forsendubrestur fyrir ári en við gáfum þessu ár til að freista þess að hér gæti orðið meiri sátt um stöðu kjaramála og þróun þeirra. Það hefur kannski ekki alveg tekist,“ segir Gylfi. Hins vegar er ekki sjálfgefið, þrátt fyrir forsendubrestinn, að kjarasamningnum verði sagt upp. „Það verður alltaf sjálfstæð ákvörðun.“

Fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .