Fjárfestingarsjóður ensku biskupakirkjunnar skilaði 17,1% ávöxtun á síðasta ári. Sjóðnum tókst því að gera betur en flestar hlutbréfavísitölur á árinu. Til samanburðar hækkaði vogunarsjóðsvísitalan (HFRI) um 5,6% og FTSE vísitalan um 14,4% á árinu 2016. Ávöxtun síðasta árs þýðir að sjóðurinn hefur skilað 9,6% meðalávöxtun á ári síðustu 30 árin.

Stjórnendur sjóðsins segja að ástæðan fyrir árangri sjóðsins á síðasta ári megi að hluta rekja til veikingar breska pundsins en einnig hafi fjárfestingar þeirra í alþjóðlegum verðbréfum, fagfjárfestingum og fjárfestingum í timburiðnaði skilað góðum árangri. Skilaði fjárfestingarsjóðurinn 230 milljónum punda til kirkjunnar á síðasta ári.

Fjárfestingarstefna sjóðsins byggir á siðferðislegum og kristnum gildum. Fjárfestir sjóðurinn ekki í fyrirtækjum sem hafa tekjur sínar af klámi, vopnaframleiðslu og öðrum ókristilegum iðnaði eins og fjárhættuspilum, sölu áfengis og okurlánum.